Bylgjutónlist
Bylgjutónlist
00:00 - 06:50

Núna

Duran Duran

Evil Woman

Næst

P!nk

Walk Me Home

Hlusta í beinni

„Flestir mínir sigrar hafa átt sér stað eftir slys“

Þórdís Valsdóttir skrifar
„Flestir mínir sigrar hafa átt sér stað eftir slys“
Arnar Helgi Lárusson lamaðist í mótorhjólaslysi fyrir tæpum tuttugu árum en hjólar nú 400 kílómetra til að safna fyrir sérútbúnum hjólum fyrir hreyfihamlaða.

Handahjólreiðamaðurinn Arnar Helgi Lárusson lagði af stað í dag í 400 kílómetra hjólareiðatúr. Arnar Helgi lenti í mótorhjólaslysi árið 2002, þá 26 ára gamall, en í því slysi lamaðist hann frá brjósti og niður.

Arnar Helgi var gestur í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag og sagði að hann hafi stundað markvissa hreyfingu frá því hann lenti í slysinu örlagaríka.

„Þegar ég slasaðist hafði ég aldrei stundað neinar íþróttir, var samt í ágætis formi þannig séð en aldrei stundað íþróttir. Ég fór út í það að reyna að ganga, eins og allir sem lenda í þessu þeir ætla að ná að ganga á ný og ég eyddi talsverðum tíma í það að reyna að ganga á spelkum og við það styrktist ég heilan helling,“ segir Arnar en bætir við að smátt og smátt hafi áhuginn á því dvínað og hann hafi snúið sér að öðrum íþróttum.

Ferðin er farin til að vekja athygli á hreyfingu hreyfihamlaðra og er öllum liðtæku hjólreiðafólki velkomið að slást í för með honum hluta af leiðinni.

„Ég átti frábær fyrstu 26 ár og síðustu 20 ár hafa ekki verið síðri og í raun hafa meiri af mínum sigrum í lífinu orðið eftir slys, öll mín börn fæddust eftir slys og ég hef gert fullt af stórmerkilegum hlutum eftir slys og ég þakka það hreyfingunni og þessu góða líkamlega standi þó svo ég geti bara hreyft 30 prósent af líkamanum,“ segir Arnar Helgi.

Viðtalið við Arnar Helga má sjá í spilaranum hér að neðan.

Til að leggja Arnari lið og hjálpa honum að safna fyrir sérútbúnum fjallahjólum fyrir hreyfihamlaða eru reikningsupplýsingarnar eftirfarandi:

SEM samtökin, kennitala 510182-0739 Reikningsnúmer 0323-26-001323. Skýring: Km400

Fleiri greinar