Partýið hefst í Bakaríinu klukkan níu og stendur til klukkan fjögur en þá hefst hamingjustund þjóðarinnar, Veistu hver ég var í sérstakri afmælisútgáfu.
Það verður gestkvæmt á Bylgjunni allan afmælisdaginn. Bríet, Jón Jónsson, Friðrik Dór og Ellen Kristjánsdótti, Sigga og Grétar úr Stjórninni og Eyfi Kristjáns og Páll Óskar mæta öll í hús og taka nokkur lög sem smellpassa í gott afmælispartý. Sérlegur undirleikari allan daginn er hinn ungi og geðþekki Magnús Jóhann.
Á meðal annara gesta eru Sóli Hólm, Edda Björgvins, Hvítvínskonan, Tveir með Öllu og Bergur Ebbi. Öll eiga þau sínar minningar um Bylgjuna og Bergur Ebbi mun rýna sérstaklega í sögu Bylgjunnar með heimspekilegum vangaveltum eins og honum einum er lagið.
Eva Laufey, Svavar Örn, Ívar Guðmunds, Pétur Valmundar, Jói Dans, Bragi Guðmunds, Sigga Lund, Kristófer Helgason, Vala Eiríks og Heimir Karls skipta með sér veislustjórninni í skemmtilegasta afmælispartýi ársins í beinni á Bylgjunni og í mynd Vísi og Stöð 2 Vísi.
„Bylgjan hefur alla tíð lagt sig fram við að eiga í góðu sambandi við þjóðina, hlustendur sína, skemmtikraft og tónlistarfólk og þakkar þessa frábæru samfylgd í 35 ár. Bylgjan hefur verið björt og skælbrosandi frá 28. ágúst 1986,“ segir um viðburðinn.
Jóhann Örn Ólafsson er skipuleggjandi dagsins. Hann mætti í viðtal í Bítinu í morgun og fór yfir afmælisdagskránna.
Vertu með stillt á Bylgjuna allan næsta laugardag. Því það eru hlustendur Bylgjunnar sem eru aðal-afmælis gestirnir. Takk fyrir að hlusta í 35 ár!